Lög Handknattleiksfélags Kópavogs

 

Lög Handknattleiksfélags Kópavogs 

Shape 

Samþykkt af aðalfundi HK 16. maí 2024 

Nafn félagsins er Handknattleiksfélag Kópavogs, skammstafað HK. Heimili og varnarþing þess er í Kópavogi. 

Tilgangur félagsins er að standa fyrir iðkun íþrótta meðal félagsmanna, auka áhuga þeirra á líkamlegu heilbrigði og efla íþróttastarf á starfssvæði sínu. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að efna til íþróttaæfinga, kappleikja, fundahalda og annars er árangur getur borið til eflingar heilbrigðu líferni. Grunngildi félagsins eru gleði, virðing og metnaður. 

Merki félagsins er stafirnir HK, hvítir á rauðum hringlaga grunni. Aðalbúningur félagsins er hvít og rauð treyja, hvítar eða rauðar buxur og hvítir eða rauðir sokkar. 

Félagið er aðili að Ungmennasambandi Kjalarnesþings (UMSK) og starfar þar með innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Með aðildinni að UMSK er félagið aðili að þeim sérsamböndum sem fara með forræði þeirra íþrótta sem stundaðar eru í félaginu hverju sinni. Félagið er einnig aðili að Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) og er háð lögum framangreindra aðila og ákvörðunum þeirra. 

Félagar í HK eru: 

      1. Allir iðkendur HK sem greiða æfingargjöld. 

      2. Þeir sem óska eftir því að vera félagar og greiða félagsgjöld til félagsins. 

Heiðursfélagar eru ekki gjaldskyldir. Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi félagsins ár hvert. Aðalstjórn skal halda félagaskrá. Aðeins félagar hafa atkvæðarétt í félaginu. Aðalstjórn getur vikið félaga úr félaginu fyrir stórfelld brot á reglum HK. 

Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið. 

Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins og hefur einn vald til að breyta lögum þess. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok maí ár hvert. Aðalfund skal boða með minnst tveggja vikna fyrirvara. Tilkynning um hann skal birtast á heimasíðu félagsins. Jafnframt skal senda tilkynningu til starfandi deilda félagsins og til þess mælst að þær komi upplýsingum um fundinn áfram til félagsmanna. Í fundarboði skal greina þau málefni sem taka á til meðferðar á aðalfundi. Gögn aðalfundar skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. 

Aðalstjórn skal kosin á aðalfundi og er hún skipuð 7 einstaklingum. Aðalstjórn skal kjörin þannig að formaður er kosinn til tveggja ára í senn. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára þannig að þrír aðalmenn eru kosnir á hverju ári. 

Aðalstjórn skal skipa þriggja manna uppstillingarnefnd með hæfilegum fyrirvara fyrir aðalfund. Skal hún skipuð félagsmönnum. Uppstillingarnefnd skal auglýsa eftir framboðum og tillögum um frambjóðendur til embætta sem kosið er til á aðalfundi félagsins minnst 2 vikum fyrir aðalfund. Tillögu sinni skal uppstillingarnefnd skila til framkvæmdastjóra félagsins eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Tillaga uppstillingarnefndar ásamt framkomnum framboðum skal liggja frammi á skrifstofu félagins til fundardags.  

Rétt til setu á aðalfundi með atkvæðisrétt, tillögurétt og málfrelsi hafa lögráða félagar HK sem greitt hafa félagsgjöld a.m.k. viku fyrir dagsetningu aðalfundar. 

Kjörgengi til stjórnarstarfa og annarra trúnaðarstarfa fyrir félagið hafa allir lögráða félagar.  

Félagar hafa rétt til að bera fram tillögur um lagabreytingar. Tillögur um lagabreytingar skulu berast framkvæmdastjóra eigi síðar en viku fyrir aðalfund og skulu þær liggja fram á skrifstofu félags fram að aðalfundi.   

Formaður aðalsstjórnar setur aðalfund. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: 

     a) Kosning fundarstjóra og fundarritara. 

     b) Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar er sannreynir atkvæðisbærni félaga.  

     c) Fundargerð síðasta aðalfundar lesin og borin upp til samþykktar.  

     d) Skrifleg skýrsla aðalstjórnar lögð fram til umræðu.  

     e) Kjörbréfanefnd skilar áliti sínu. 

     f) Endurskoðaður ársreikningur aðalstjórnar lagðir fram til umræðu og samþykktar.  

     g) Fjárhagsáætlun lögð fram og samþykkt fjárhagsáætlunar.  

     h) Lagabreytingar.  

     i) Kosningar:  

          a. Kosning formanns (annað hvort ár). 
          b. Kosning þriggja stjórnarmanna. 

     j) Ákvörðun félagsgjalda. 

    k) Önnur mál.  

Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum mála. Til þess að breyta lögum félagsins þarf þó tvo þriðju hluta greiddra atkvæða. 

Að jafnaði skal ekki taka til formlegrar afgreiðslu önnur mál en þau sem eru birt eru á formlegri dagskrá aðalfundar. Leita má þó afbrigða og taka mál til formlegrar afgreiðslu undir liðnum önnur mál, en tvo þriðju hluta greiddra atkvæða þarf til að afbrigði nái fram að ganga. Tvo þriðju hluta greiddra atkvæða þarf til að tillaga, sem borin er fram undir liðnum önnur mál, hljóti samþykki. Engin getur farið með nema eitt atkvæði á aðalfundi.  

Aukaaðalfund skal halda ef aðalstjórn telur þess þörf, eða ósk þar um berst frá meirihluta deilda félagsins. Aukaaðalfundur er lögmætur, ef til hans er boðað samkvæmt ákvæðum 7. Greinar þessara laga. Aukaaðalfundur hefur sama vald og aðalfundur. 

Aðalstjórn félagsins getur boðað til almenns félagsfundar telji aðalstjórn ástæðu til og skal skylt að boða almennan félagsfund ef 30 félagsmanna eða fleiri krefjast þess. Fundarboð sé þá með sama hætti og til aðalfundar og skal tilefni fundarins tilgreint í fundarboði. Almennur félagsfundur er ályktunarbær um boðað fundarefni. 

9. grein – Aðalstjórn  

Aðalstjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins og deilda þess á milli aðalfunda. Aðalstjórn samræmir starf og stýrir sameiginlegum málum deilda, skipuleggur sameiginlega þjónustu innan félagsins og annast upplýsingamiðlun.  

Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Stjórn skal að lágmarki skipa varaformann. Aðalstjórn skal setja sér starfsreglur. Stjórn er ályktunarbær sé meirihluti stjórnarmanna mættur. Stjórnarmenn í aðalstjórn skulu ekki gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir HK. Stjórnarmenn í aðalstjórn skulu ekki taka þátt í afgreiðslu mála er varða persónulega hagsmuni þeirra eða aðila tengdum þeim. 

Aðalstjórn er forsvari þess gagnvart UMSK, ÍSÍ, UMFÍ, viðkomandi ungmennafélagi, Kópavogsbæ, öðrum opinberum yfirvöldum og aðalstjórn annarra íþróttafélaga. Skal aðalstjórninni heimilt að kalla félagsmenn sér til aðstoðar og skipa starfsnefndir til sérstakra verkefna ef þurfa þykir s.s. til uppbyggingar félagssvæðis og íþróttahúsa. Slíkar starfsnefndir skulu skipaðar að lágmarki einum stjórnarmanni.  

Verkefni aðalstjórnar eru auk ofangreinds m.a. ýmis stærri fjáröflunarverkefni, skipting styrkja, lottógreiðslna og getrauna auk yfirumsjónar félagatals HK. 

Aðalstjórn ber ábyrgð á fjárreiðum deilda, hún setur deildum reglur um fjárreiður og meðferð fjármuna og hefur eftirlit með starfsemi þeirra. Aðalstjórn skal færa bókhald deilda samkvæmt reglugerðum ÍSÍ um bókhald deilda. 

Aðalstjórn annast rekstur eigna HK, starfrækir íþróttaskóla HK og almenningsíþróttahópa HK. Kaup, sala og veðsetning fasteigna félagsins er bundin samþykkt a.m.k. 2/3 hluta aðalstjórnar. 

Aðalstjórn ræður framkvæmdastjóra til þess að annast daglegan rekstur félagsins. Framkvæmdastjóri hefur í umboði aðalstjórnar umsjón með daglegum rekstri félagsins, svo sem mannvirkjum, skrifstofum félagsins og þjónustu við deildarstjórnir. Aðalstjórn getur falið framkvæmdastjóra frekari verkefni. Aðalstjórn setur framkvæmdastjóra starfsreglur. 

Skylt er að halda aðalstjórnarfundi reglulega og skal halda um þá sérstaka gerðarbók. 

Aðalstjórn félagsins skal halda sameiginlegan upplýsingafund með stjórnum deilda félagsins í það minnsta tvisvar á ári. Formaður deildar getur óskað eftir setu á fundi aðalstjórnar til að ræða málefni deildar og skal orðið við slíkri ósk innan mánaðar frá því hún barst. 

10. grein – Deildir  

Félaginu er skipt í deildir sem hver sinnir afmörkuðu sviði íþrótta-, tómstunda- og/eða félagsmála. Deildum félagsins er skylt að setja sér starfsreglur á aðalfundi sínum sem skulu staðfestar á aðalfundi félagsins.  

Deildir eru háðar eftirliti aðalfundar félagsins um starfsemi sína og fjármál og aðalstjórnar milli aðalfunda. Lántökur deilda eru óheimilar nema með samþykki aðalstjórnar. Leggja skal fjárhagsskuldbindingar s.s. leikmannasamninga og þjálfarasamninga deilda fyrir aðalstjórn til samþykktar. 

Aðalstjórn skal hafa umsjón með stofnun nýrra deilda og setur nýrri deild starfsreglur til bráðabirgða. Aðalfundur, sá næsti eftir stofnun deildar, skal staðfesta starfsreglur deildarinnar. Stofnfundur deildar skal fara fram samkvæmt reglum um aðalfundi deilda. 

Hætti deild störfum er stjórn deildarinnar skylt að afhenda eignir hennar til aðalstjórnar til varðveislu. Taki deildin ekki til starfa að nýju innan 5 ára renna eignir hennar í sjóð aðalstjórnar. 

Aðalfundir deilda fara með æðsta vald í málefnum þeirra, næst á eftir aðalfundi félags og aðalstjórn. 

Hver deild skal halda aðalfund fyrir lok apríl ár hvert. Boðað skal til aðalfundar með tveggja vikna fyrirvara á heimasíðu félagsins. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Fundir deilda eru opnir félagsmönnum en rétt til atkvæðagreiðslu hafa lögráða félagar. Kjörgengir til trúnaðarstarfa deilda eru lögráða félagsmenn.  

Skriflegu framboði skal skila framkvæmdastjóra félagsins að lágmarki viku fyrir boðaðan aðalfund. Heimilt er að víkja frá þessari reglu, með samþykki aðalstjórnar, takist ekki að manna laus stjórnarsæti.  

Dagskrá aðalfundar deilda skal vera: 
     1. Kosning fundarstjóra og fundarritara. 

     2. Fundargerð síðasta aðalfundar deildar lesin upp og borin til samþykktar.  

     3. Lögð fram skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár. 

     4. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar til umræðu og afgreiðslu til aðalstjórnar. 

     5. Kosningar:
              a) Kosning formanns (annað hvort ár) 
              b) Kosning stjórnamanna, að lágmarki fjórir, til eins árs 
              c) Kosning formanna flokksráða 
              d) Kjör í fjáröflunarráð ef aðalfundur ákveður. 

     6. Breytingartillögur á starfsreglum deildar bornar upp til atkvæða. Slíkar tillögur verða ekki teknar til afgreiðslu nema þeirra sé getið í fundarboði. 

     7. Önnur mál. 

Á aðalfundi skal einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ráða niðurstöðu. 

Vanræki deild að halda aðalfund á tilsettum tíma skal aðalstjórn boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans. 

Deildarstjórnir fara með daglegan rekstur deilda milli aðalfunda þeirra og hafa ákvörðunarvald í málefnum viðkomandi deildar. Deildarstjórn ber ábyrgð á útgjöldum, tekjuöflun og fjárreiðum deildar og að fylgt sé opinberum reglum og fyrirmælum aðalstjórnar um bókhald, endurskoðun, reikningsskil og meðferð fjármuna. 

Stjórn deilda skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Að lágmarki skal skipa varaformann og gjaldkera. Enginn einstaklingur getur gegnt meira en einu af ofangreindum embættum á sama tíma. 

Stjórn deildar skal hlutast til um að skipuð séu ráð sem starfrækt eru í samræmi við starfsreglur deildar. Ráðin sinna daglegum rekstri meistaraflokka og barna- og unglingastarfs og skulu hafa sjálfstæðan fjárhag og bera fjárhagslega ábyrgð gagnvart stjórn deildar. 

Aðalfundur deildar kýs formenn ráða. Formaður ráðs er jafnframt stjórnarmaður deildar. Fjölda ráða og meðlima þeirra skal ákveða í starfsreglum deildar en fjöldi meðlima skal að lágmarki vera 3.  

Hver deild skal skila endurskoðuðum reikningum og skýrslu til aðalstjórnar 5 virkum dögum fyrir aðalfund deildarinnar.  

Stjórn er ályktunarbær sé meirihluti stjórnarmanna mættur. Hver deild skal halda gerðabók um allar ákvarðanir stjórnar og annað markvert sem varðar starf hennar. Gerðabók skal vera aðgengileg aðalstjórn á hverjum tíma. 

Hver deild skal halda nákvæma skrá yfir iðkendur deildarinnar. Iðkendaskrá deildar skal aðgengileg aðalstjórn félags og framkvæmdastjóra á hverjum tíma. 

Hver stjórnarmaður hefur eitt atkvæði komi til kosninga innan stjórnar. Falli atkvæði jöfn hefur atkvæði formanns tvöfalt vægi enda sé meirihluti stjórnarmanna viðstaddur.  

Hætti stjórnarmaður getur stjórn tilnefnt stjórnarmann til bráðabirgða í hans stað að fengnu samþykki aðalstjórnar. Hætti formaður störfum skal stjórn kjósa nýjan formann fram að næsta aðalfundi deildarinnar. Ef meirihluti stjórnar hættir störfum eða stjórn verður óstarfhæf af einhverjum ástæðum er aðalstjórn heimilt að boða til deildarfundar í því skyni að kjósa nýja stjórn. Skal boðun og framkvæmd fundar fara eftir sömu reglum og vegna aðalfundar deildar. 

Stjórnir deilda ráða faglærða þjálfara og ákveða laun þeirra. Við ráðningu þjálfara til yngri flokka skulu deildir hafa til hliðsjónar stefnuyfirlýsingu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands um þjálfaramenntun. Ráðning skal staðfest af aðalstjórn. 

Stjórn deildar ákveður æfingagjöld deildar. Æfingagjöld skulu staðfest af aðalstjórn. 

Aðalstjórn er heimilt að leggja fyrir stjórn deildar að skila uppgjöri ársfjórðungslega telji aðalstjórn ástæðu til. 

Brjóti stjórn deildar alvarlega gegn skyldum sínum samkvæmt lögum þessum eða í ljós koma alvarlegir misbrestir í starfi deildar er aðalstjórn rétt að beina áskorun til stjórnar deildar um tafarlausar úrbætur á því sem aflaga hefur farið. Bregðist stjórn deildar ekki við skriflegri áskorun aðalstjórnar um úrbætur með fullnægjandi hætti innan 14 daga getur aðalstjórn vikið stjórn deildar til hliðar og tekið yfir rekstur deildar til bráðabirgða en aðalstjórn skal þá efna til aukaaðalfundar eins fljótt og við verður komið og ekki síðar en innan tveggja mánaða frá því aðastjórn vék deildarstjórn til hliðar. Áskorun um úrbætur samkvæmt grein þessari telst löglega afhent þegar hún hefur verið birt tveimur stjórnarmönnum deildar með sannanlegum hætti. 

Aukaaðalfund deildar skal halda ef aðalstjórn eða deildarstjórn telur þess þörf, eða ósk þar um berst frá 20% skráðra iðkenda deildarinnar. Aukaaðalfundur er lögmætur, ef til hans er boðað samkvæmt ákvæðum 7. greinar þessara laga. Aukaaðalfundur hefur sama vald og aðalfundur 

Stjórn deildar skal skylt að boða almennan félagsfund ef 30 félagsmenn eða fleiri krefjast þess. Fundarboð sé þá með sama hætti og til aðalfundar og skal tilefni fundarins tilgreint í fundarboði. Almennur félagsfundur er ályktunarbær um boðað fundarefni. 

Komi upp grunur um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi í starfsemi HK skal fylgja verklagi sem aðalstjórn HK hefur sett. 

Félaginu má slíta að fengnu samþykki 4/5 þeirra sem atkvæði greiða á fundi sem boðað er til sérstaklega í þessu skyni. Skal fundarefnis getið í auglýsingu. Boðun fundarins skal vera í samræmi við ákvæði 1. mgr. 8. gr. Verði félaginu slitið skulu eignir þess ganga til Kópavogsbæjar til varðveislu og afhendist síðar félagi sem stofnað yrði með hliðstæðum markmiðum. 

Lög þessi öðlast gildi þegar þau hafa hlotið staðfestingu ÍSÍ og UMSK. Falla þá úr gildi fyrri lög félagsins.