HK Íslandsmeistarar í 2.fl kvk!

- 

Í gærkvöldi fór fram síðasti leikur tímabilsins í A-deild þegar heimastelpur í HK mættu Víkingi. Fyrir leikinn voru HK í 1 sæti í deildinni með 19 stig en Víkingur í 2. Sæti með 17 stig og því um úrslitaleik að ræða um Íslandsmeistaratitil.

Á fyrstu mínútunum skiptust liðin á að sækja en á 17. mínútu fengu HK aukaspyrnu á miðjum vellinum. Rakel tók spyrnuna inn í teig þar sem Ragnhildur las flugið á boltanum vel og tók vel við boltanum og lék á markvörð Víkings af mikilli yfirvegun. Víkingar sóttu aðeins næstu mínútur og á 33 mín slapp Sigdís Eva, leikmaður Víkings innfyrir vörnina og jafnaði leikinn fyrir Víking. Staðan 1-1 í hálfleik í jöfnum leik.

Víkingar hófu fyrstu mínútur seinni hálfleiks af krafti en vörnin með þær Kristjönu, Amöndu, Láru Hallgríms og Rakel hélt mjög vel og Sigga var örugg í sínum aðgerðum í markinu.

Á 55 mínútu sendi varnarmaður Víkings sendingu tilbaka á markvörð en Katrín Rósa var fljót að átta sig á hlutunum og komst inn í sendinguna, var á undan markverði Víkings og lagði boltann í opið mark 2-1! Katrín Rósa var að skora 20 markið sitt í sumar fyrir 2.fl í 10 leikjum. Fyrir talnaglögga gerir það 2 mörk að meðaltali í leik!

Hólmfríður Þrastardóttir gerði svo út um leikinn með tveimur góðum mörkum á 75 og 89 mínútu leiksins.

Lokatölur 4-1 og var fagnað vel í leikslok - Íslandsmeistarar 2022!

Árangur liðsins í sumar hefur verið frábær – Í 10 leikjum hefur liðið unnið 7 leiki og skorað 35 mörk.

Það sem vekur athygli er að í liðinu í gær er meirihluti liðsins á 3.flokks aldri en alls 9 leikmenn af 15 sem tóku þátt í leiknum eru fæddar árið 2006-2007. Sannarlega frábær efniviður og framtíðin er björt í HK!

Innilega til hamingju með titilinn stelpur!