Alexander og Björg sæmd silfurmerki ÍSÍ

Á þingi Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) sem haldið var fyrr í mánuðinum voru þau Alexander og Björg sæmd silfurmerki ÍSÍ við hátíðlega athöfn.

Þorsteinn Pálsson fyrir hönd ÍSÍ afhenti þeim Alexanderi Arnarsyni og Björgu Erlingsdóttur silfurmerkin.

 

Alexander Arnarson þarf vart að kynna fyrir HK-ingum en hann er á meðal leikjahæstu leikmanna félagsins og hefur skilið eftir sig spor sem seint verður fyllt upp í. Alexander var algjör lykilmaður í mörg ár og var stór partur í hinu stjörnum prýdda liði okkar sem varð bikarmeistari árið 2003. Að leikmannaferlinum loknum byrjaði hann að starfa sem sjálfboðaliði og er enn að. Hann var formaður handknattleiksdeildarinnar þegar liðið vann Íslandsmeistaratitilinn í Digranes árið 2012. Hann er enn algjör lykilmaður, nú situr hann í aðalstjórn HK. Auðmýkt og góðmennska hafa alltaf verið Alexanders helsta vopn, HK er í fyrsta sæti og markmiðið að vilja sjá félagið blómstra eins og vera ber. Alexander er sjaldgæfur og sannur félagsmaður eins og þeir gerast langbestir.”

 

Björg Erlingsdóttir hefur átt stóran þátt í því að gera blakdeild HK að einni stærstu blakdeild landsins, en hún hefur í tugi ára unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir bæði barna- og meistaraflokka okkar. Björg hefur einnig verið mikil baráttukona fyrir blakíþróttina á Íslandi og tekið þátt í því að móta starfið á landsvísu. Hún gengur í öll mál, stór sem smá, leysir allt af kostgæfni, metnaði og yfirvegun. Hún er alltaf boðin og búin að aðstoða hvort sem hún er í sitjandi stjórn eða ekki á viðkomandi tíma. Þrátt fyrir að hafa setið í stjórn klúbbsins í áraraðir er hún enn að. Hún er oft á tíðum “konan á bak við tjöldin“ á öllum helstu viðburðum félagsins, s.s. Öldungamótum, blakmótum og blakleikjum. Björg er algjörlega einstök manneskja og að hafa hana sér við hlið í félagsstarfinu er ómetanleg.  Dugnaður Bjargar og ósérhlífni hefur heldur betur smitað út frá sér, en hún hefur verið hvatning fyrir m.a. sitjandi stjórn til að taka þátt í félagastarfinu. Hún hefur einnig alið upp þrjá afburða blakara sem eru allir mjög virkir í sjálfboðaliðastarfi og boðnir og búnir til að hjálpa. Björg Erlingsdóttir er dæmigerður fyrirmyndarfélagi sem vinnur í sjálfboðavinnu og óeigingjarnt starf fyrir sitt félag og blaksamfélagið allt og er því verðugur fulltrúi heiðursverðlauna UMSK.