Eysteinn Húni Hauksson tekur við af Ragnari Gíslasyni

Eysteinn Húni Hauksson tók við starfi yfirþjálfara í dag
Eysteinn Húni Hauksson tók við starfi yfirþjálfara í dag

Eysteinn Húni Hauksson hefur tekið við starfi yfirþjálfara yngri flokka í knattspyrnu af Ragnari Gíslasyni sem sagði starfi sínu lausu á haustmánuðum.

Eysteinn er fimmtugur austfirðingur sem býr yfir mikilli reynslu eftir að hafa starfað víða í íslenskum knattspyrnuheimi í áratugi. Má þar nefna yngri flokka þjálfun hjá Keflavík, Grindavík og ÍBV auk uppeldisfélagsins Hattar, Egilsstöðum. Eysteinn hefur áður sinnt starfi yfirþjálfara hjá Grindavík og Val og hefur auk þess sinnt kennslu á þjálfaranámskeiðum fyrir KSÍ, sem og verið í hlutverki aðal- og aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla hjá Keflavík um sex ára skeið, meðal annars í Bestu deildinni.

Eysteinn hefur KSÍ PRO þjálfaragráðu sem er sú hæsta sem er í boði í Evrópu og lauk á sínum tíma BA gráðu í Félagsfræði.

"Ég hlakka mikið til þeirra áskorana sem ég stend nú frammi fyrir með þjálfarteymum yngri flokka að halda áfram að þróa það öfluga starf sem unnið hefur verið hér hjá HK. Það er öllum ljóst að HK er félag sem er fullt af hæfileikum, tækifærum og möguleikum og því geng ég glaður til móts við þau fjölmörgu spennandi verkefni sem fylgja starfi yfirþjálfara."

Við viljum nýta tækifærið og þakka Ragnari kærlega fyrir frábært starf í þágu knattspyrnudeildar HK en hann hefur sinnt starfinu af miklum sóma og kostgæfni. Vonir standa til að sjá hann áfram á hliðarlínunni en mikil áhersla er á að klára þjálfaramál deildarinnar sem allra fyrst. Ragnar verður Eysteini til halds og trausts fyrstu vikur starfsins og með því erum við þess fullviss að geta lokað þeim málum sem liggja fyrir þessa stundina.

Eysteinn Húni er með netfangið eysteinnhhk@hk.is.

#LiðFólksins #HKalltafHK