Magðalena Ólafsdóttir í HK

HK hefur samið við Magðalenu Ólafsdóttur um að leika með liðinu næstu 2 árin.

 

Magðalena er ung og afar efnileg knattspyrnukona en hún lék með liði Fram í 2. deildinni á síðasta tímabili og sýndi þar hvað í henni býr. Magðalena var valin besti leikmaður meistarflokks Fram. 

 

„Koma Magðalenu er mikill liðsstyrkur fyrir HK en hún er harðduglegur baráttujaxl sem skilur allt eftir á vellinum. Ásamt því að vera góður karakter og mikill liðsmaður hefur hún yfir góðum leikskilning að ráða sem og góðri spyrnugetu. Við fögnum komu hennar í okkar hóp“ segir Jakob Leó Bjarnason þjálfari HK.

 

Um samninginn hefur Magðalena þetta að segja:

„HK er lið með skýra uppbyggingarstefnu og framtíðarsýn, ég er mjög spennt að taka þátt í því verkefni með þeim. Umgjörðin er algjörlega til fyrirmyndar og hef ég allt til alls til þess að þróast sem leikmaður, þess vegna tel ég HK vera rétta skrefið fyrir mig núna. Jakob er frábær þjálfari og ég hlakka mikið til að vinna með honum. Ég mun leggja mig alla fram við það að hjálpa liðinu að ná sem bestum árangri. Mig langar að þakka þjálfara Fram Christopher Harrington og stelpunum fyrir frábæra tíma, ég er virkilega þakklát fyrir allt sem þau hafa gert fyrir mig og óska þeim alls hins besta.“