Guðni Þór Einarsson er nýr þjálfari meistaraflokks kvenna

 

Guðni Þór Einarsson hefur skrifað undir tveggja ára samning um að stýra meistaraflokki kvenna hjá HK.

 

Guðni kemur til HK frá Tindastóli þar sem hann hefur stýrt meistaraflokki kvenna frá árinu 2018. Þar náði hann frábærum árangri en undir hans stjórn komst liðið upp um tvær deildir og spilaði í efstu deild í sumar í fyrsta skipti í sögu félagsins. Guðni er að hefja nám á UEFA A þjálfaragráðu hjá KSÍ og stundar nám í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík.

 

Meistaraflokkur kvenna hjá HK leikur áfram í Lengjudeild kvenna og er mikill hugur í liðinu að sanna sig enn frekar á næsta tímabili. HK byggir á góðum grunni og eru stórir og öflugir yngri flokkar að koma upp innan félagsins. Framtíðin er því björt hjá HK og mun Guðni gegna lykilhlutverki í áframhaldandi uppbyggingu liðsins.

 

„Það er spennandi og krefjandi verkefni að taka við HK liðinu og ég hlakka mikið til að hefja störf fyrir félagið. HK er í mikilli uppsveiflu og hér vinna frábært starfsfólk og sjálfboðaliðar markvisst í að hafa umgjörðina og starfið eins og best verður ákosið“, segir Guðni.

 

Stjórn HK er spennt fyrir komandi tímum hjá meistaraflokki kvenna og fagnar því að fá Guðna til starfa hjá félaginu.

 

Áfram HK!