Góð frammistaða á Norden Cup

Pistill frá þjálfara 4. flokks kvenna í handknattleik.

Þá er frábæru móti lokið hjá stelpunum í 4. flokki fæddum 2010 á Norden Cup. Niðurstaðan er frábær og miklar framfarir hjá þessum stelpum. Þær enduðu í 7. sæti eftir að hafa komist inn í A úrslit með frábærri spilamennsku. Til gamans voru þær á sama móti í fyrra og þar enduðu þær í 14. sæti þannig þær eru á leiðinni í rétta átt.

Okkur langar að gefa ykkur smá ferðasögu frá þessari frábæru ferð.

Stelpurnar spiluðu fyrsta leikinn sinn á föstudeginum 27. des kl. 19 móti Stabæk frá Noregi og úr varð hörku leikur sem vannst nokkuð örugglega á endanum með frábærum varnarleik og góðum sóknarleik 21-14. 

Laugardaginn 28. des voru tveir leikir, fyrri leikurinn hófst kl. 10 og var rútínan fyrir leik ekki sú besta eftir á að hyggja. Leikurinn var erfiður frá upphafi og má segja að þetta hafi verið okkar versti leikur í mótinu. Monolitten frá Noregi var andstæðingurinn og var svakaleg stemning í því liði sem eiginlega keyrði yfir okkur á þann hátt. Leikurinn endaði 22-18 fyrir Monolitten. Seinni leikurinn var kl. 14 og þar mættum við Önnered HK frá Svíþjóð sem vann Monolitten deginum áður og því úrslitaleikur um að komast í A eða B úrslit. Þetta var svakalega jafn leikur og mikil harka. Jafnt var í hálfleik en í seinni hálfleik kom vörn og markvarsla inn og stelpurnar unnu frábæran sigur á sterku liði Önnered HK 13-18 sem hefði átt að tryggja okkur fyrsta sætið í riðlinum á markatölu en því miður vann Monolitten sinn leik og fór með okkur í A úrslit sem 1. sæti í okkar riðli. Við enduðum því í 2. sæti en með mun betri markatölu en það dugði ekki til.

Hér mátti sjá úr hverju stelpurnar voru gerðar. Frábær sigur og geggjaður árangur að komast í A úrslit á Norden Cup.

Sunnudaginn 29. des kl. 10 var leikur í 8-liða úrslitum gegn liði sem lenti í 2. sæti í fyrra á mótinu. Skanderborg Handbold mætti okkur í þessum leik, stelpurnar löguðu rútínuna fyrir þennan leik og vöknuðu fyrr og fóru í góðan göngutúr til að undirbúa sig. Það skilaði sér svo sannarlega. Skanderborg Handbold var með markatöluna +43 mörk eftir sinn riðil en okkar stelpur +6 mörk. Leikurinn var jafn og spennandi mest allan leikinn. Í byrjun seinni hálfleiks náði danska liðið fjögurra marka forustu en 13-9 en stelpunnar komu til baka og jöfnuðu 13-13 eftir það náðu dönsku stelpunnar aftur tveggja marka forystu og enduðu á að vinna leikinn 20-16 eftir geggjaðan leik okkar stelpna. Til að gera langa sögu stutta vann Skanderborg Handbold mótið að lokum.

Eftir þennan leik var því niðurstaðan að spila um 5. - 8. sæti á mótinu. Þar mættu stelpurnar liði frá Noregi, Fjellhammer IL sem átti kannski ekki alveg að vera erfiðasti leikurinn. En þetta var kannski ekki sanngjarn leikur þar sem eitt skref var bara leyft og áttu stelpurnar mjög erfitt uppdráttar í þessum leik. Við náðum ekki upp okkar anda og tap því niðurstaðan 13-16.

Það var því ljóst að leikur um 7. - 8. sætið var niðurstaðan. Mánudaginn 30. des var leikur kl. 09 móti Nordstrand IF sem endaði í 3. sæti á síðasta Norden Cup. Leikurinn var ekki okkar besti en það er ekki alltaf þannig, en vá vá stelpurnar áttu einhverja bestu endurkomu sem undirritaður hefur orðið vitni að. Fjórar mín. og 30 sek. eftir af leiknum og stelpurnar að tapa með 5 mörkum. Þær fara í maður á mann og ná að vinna eitt mark í einu sem endaði þannig að við skorum sigur markið þegar 15 sek. eru eftir og norska liðið náði ekki að jafna og því eins marks sigur niðurstaðan og 7. sætið tryggt. Stórkostlegur karakter hjá liðinu.

Takk allir foreldrar fyrir aðstoðina, stuðninginn, viðveruna og samveruna á þessu frábæra móti.

Takk stelpur fyrir að leggja þetta á ykkur og standa ykkur svona frábærlega.

Framtíðin er okkar í HK.

#LiðFólksins #HKalltafHK