Ákamót 2023

Helgina 11-12 mars var handboltamót, nefnt Ákamótið, haldið í Kórnum. Þetta mót er haldið árlega í minningu Þorvarðar Áka Eiríkssonar fyrsta formanns HK. Mótið er haldið fyrir 7.flokk stráka og stelpna (9-10 ára) og er þetta eitt fjölmennasta yngri flokkamót landsins með rúmlega 900 iðkendum.

 

Á Ákamótinu er spilað með mjúkan bolta, 4 leikmenn eru inná í einu og lögð er áhersla á gleði og skemmtun og að allir krakkar fái að vera með. Á þessu móti er engin dómgæsla heldur sjá þjálfararliðanna um að leiðbeina leikmönnum sinna liða. Skoruð mörk eru ekki talin og því allir sigurvegarar og í mótslok fá allir keppendur verðlaunapening fyrir þátttökuna.

Svona mörgum keppendum fylgja margir aðstandendur og því mikið líf og fjör í Kórnum þessa helgi. Barna- og unglingaráð HK sá um rekstur sjoppunnar á þessu móti og fengu veglega styrki frá ýmsum fyrirtækjum. Þessi fyrirtæki fá mestu þakkir fyrir og eru: Myllan, Mjólkursamsalan, Kjarnafæði og Árbæjarbakarí.

Myndina af unga HK iðkandanum tók Jóhann Jóhannsson, eigandi www.sporthero.is en inni á síðunni eru fullt af myndum, bæði einstaklingsmyndir og myndir af öllum liðunum sem tóku þátt í mótinu, við hvetjum alla til að skoða.