COVID19 - uppfært 11. febrúar

 


Uppfært 11. febrúar 2022

 

Nýjar leiðbeiningar vegna Covid-19 verða gefnar út eftir helgi.

Upplýsingar til sambaðsaðila ÍSÍ um tilslakanir á samkomutakmörkunum, Reykjavík, 11. febrúar 2022

Afléttingar á sóttvarnarreglum hafa verið boðaðar og tekur ný reglugerð gildi á miðnætti. Reglur um sóttkví verða þó afnumdar strax í dag.

Helstu reglur er varða íþróttahreyfinguna verða eftirfarandi: 

  • Fjöldatakmarkanir fara úr 50 í 200 manns innandyra. Fjöldatakmarkanir utandyra falla úr gildi.
  • Á íþróttaæfingum og í keppnum hjá börnum og fullorðnum innandyra verður heimilt að hafa allt að 200 manns í rými.
  • Sameiginleg áhöld skulu áfram sótthreinsuð milli hópa og mikilvægt að loftræsting sé í lagi.
  • Almennt gildir 1 metra regla í samfélaginu og skylt að nota grímu þar sem ekki verður hægt að viðhafa 1 metra nálægðartakmörkun.
  • Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin nálægðartakmörkunum og börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.
  • Heimilaður fjöldi á sitjandi viðburðum verður 1000 manns í hverju rými að því gefnu að allir séu sitjandi, ekki andspænis hver öðrum og að allir beri andlitsgrímu.
  • Reglur um sóttkví og smitgát falla úr gildi. Fólk er ekki lengur skylt til að fara í sóttkví eða smitgát en þó eru aðilar hvattir til þess að viðhafa smitgát og fylgjast vel með einkennum hafi það verið í nánum samskiptum við smitaðan einstakling og fara í PCR sýnatöku ef einkenni fara að gera vart við sig.
  • Heilsu- og líkamsræktarstöðvar, sundstaðir og skíðasvæði geta tekið á móti leyfilegum fjölda miðað við hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi.

 

 

Uppfært 31. jánúar 2022

 



Upplýsingar um tilslakanir á samkomutakmörkunum, birt 28.01.2022 á vef ÍSÍ

Á miðnætti tekur gildi ný reglugerð um samkomutakmarkanir og eftirfarandi eru helstu atriði er snerta almenning og íþróttastarf í landinu:

  • Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 10 í 50 manns
  • 1 metra regla mun taka gildi í stað 2 metra reglu
  • Grímuskylda mun gilda áfram og tekur mið af nándarreglu
  • Fjöldatakmarkanir í íþróttum verða áfram 50 manns
  • Það verður heimilt að hafa allt að 500 manns í hverju hólfi í áhorfendasvæðum á íþróttaviðburðum
  • Sundstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði fá að taka á móti allt að 75% af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi.

Hér er hægt að lesa frétt á vef Heilbrigðisráðuneytisins en beðið er eftir að reglugerðin verði birt til að sjá frekari útfærslu á reglunum.

 

 

Smitgát vegna COVID-19, tekið af vef covid.is 31.01.22

Fólk fer í smitgát þegar það hefur umgengist eða verið á sama stað og einhver sem síðar greinist með COVID-19. Með því að vera í smitgát fækkar smitleiðum og við drögum úr útbreiðslu COVID-19. Smitgát er almennt 5 dagar.

Smitgát er:

Fyrir fólk hefur verið á sama stað og einhver sem síðar greinist með COVID-19 en býr ekki á sama heimili. Fólk í þessum hópi er ekki skráð formlega í smitgát og þarf ekki að fara í PCR til að ljúka henni.
Ef einhver á heimilinu smitast af COVID-19 og aðrir heimilismenn hafa fengið þrjár bólusetningar, eða hafi sögu um COVID-19 og tvær bólusetningar. Það fólk fer í smitgát sem lýkur með PCR prófi eftir 5 daga. Athugið þó að ef ekki er aðskilnaður á heimilinu milli þess sem er í einangrun og annarra heimilismanna má ekki ljúka smitgát fyrr en eftir að einangrun er lokið.
Ekki fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri. Þau eru undanþegin smitgát vegna útsetningar utan heimilis en ef smit er á heimili fara þau í sóttkví.

Í smitgát skal:

Bera grímu í margmenni.
Bera grímu þegar ekki verður hægt að viðhafa tveggja metra nándarreglu, úti sem inni.
Forðast mannmarga staði.
Sleppa umgengni við viðkvæma einstaklinga.
Gæta vel að persónubundnum sóttvörnum.
Fylgjast vel með einkennum og fara beint í PCR sýnatöku ef þau koma fram.

Helstu einkenni COVID-19: Hiti, hósti, kvefeinkenni, hálsbólga, slappleiki, þreyta, höfuðverkur, bein-/vöðvaverkir, skyndileg breyting á lyktar- eða bragðskyni, kviðverkir og niðurgangur.

Sýnatöku vegna einkenna er hægt að panta á Heilsuveru á Mínum síðum (með rafrænum skilríki) eða gegnum netspjall Heilsuveru. Einnig er hægt að hringja í heilsugæsluna á dagvinnutíma, eða utan dagvinnutíma á Læknavaktinni í 1700.

Upplýsingar um COVID-19 og netspjall er í boði á covid.is.

 

Uppfært 26. janúar 2022


Til sambandsaðila ÍSÍ

Á miðnætti var slakað á reglum um sóttkví og eru reglurnar nú í aðalatriðum eftirfarandi: 

  • Einstaklingum sem eru útsettir fyrir COVID-19 smiti utan heimilis verður ekki lengur skylt að fara í sóttkví en þurfa þess í stað að viðhafa smitgát.
  • Í smitgát skal viðkomandi bera grímu í margmenni og þegar ekki er hægt að viðhafa tveggja metra nándarreglu, úti sem inni. Forðast skal mannmarga staði og sleppa umgengni við viðkvæma einstaklinga.
  • ​Börn á leik- og grunnskólaaldri eru undanþegin smitgát í þessum tilfellum en þurfa að vera í sóttkví ef smit er á heimili.
  • Sóttkví verður áfram skylda fyrir þá sem eru útsettir fyrir smiti innan heimilis en þríbólusettir sem útsettir eru á heimili geta verið í smitgát sem lýkur með sýnatöku.
  • Börn á leik- og grunnskólaaldri verða undanþegin smitgát. 
  • Skilyrði sóttkvíar verða óbreytt, þ.e. aðskilnaður frá öðrum í fimm daga og PCR-próf til að losna.
  • Ef ekki er viðhafður fullur aðskilnaður frá smituðum á heimili lýkur sóttkví með PCR-prófi degi eftir að sá smitaði útskrifast, eins og verið hefur.

Aðrar reglur um samkomutakmarkanir gilda áfram og helstu atriði er varða íþróttahreyfinguna eru eftirfarandi: 

  • Almennar takmarkanir eru 10 manns 
  • Fjöldatakmarkanir á æfingum og í keppnum er 50 manns í hverju rými
  • Áhorfendur eru bannaðir

Áfram eru allir hvattir til þess að gæta vel að persónubundnum sóttvörnum og halda áfram að fylgja öllum reglum um samkomutakmarkanir og sóttvarnir.

Hér á vef heilbrigðisráðuneytisins má lesa nánar um breytingu á reglum um sóttkví

 

 

Uppfært 14. janúar 2022

 

Íþróttastarf fær að halda áfram í 50 manna hólfum og á það við um börn og fullorðna. Þó verða áhorfendur á öllum íþróttaviðburðum bannaðir en heimilt að hafa fjölmiðlafólk að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.


Við sendum út frekari upplýsingar eftir því sem þær berast.

Uppfært 3. janúar 2022

Æfingar hjá yngri flokkum fara aftur af stað

Að öllu óbreyttu hefjast æfingar hjá yngri flokkum HK að nýju þriðjudaginn 4. Janúar (einhverjir flokkar nú þegar byrjaðir) að því gefnu að ekkert breytist varðandi reglur um þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi.

Búið er að opna fyrir skráningar og viljum við minna foreldra á að ganga þarf frá skráningu iðkenda í vorönn þar sem það á við.

Í ljósi stöðu mála viljum við brýna fyrir okkar fólki mikilvægi þess að fylgja reglum og viðmiðum um sóttvarnir og sér í lagi smitgát.

Þótt smitgát sé ekki formlega skipuð sóttkví er engu að síður mikilvægt að sýna aðgát og æskilegt er að forðast mannmarga staði að óþörfu og sleppa fjölmennum viðburðum. 

Við viljum hvetja fólk til þess að sýna aðgát og samfélagslega ábyrgð.  Að því sögðu þá viljum við óska eftir því að iðkendur í smitgát mæti ekki á æfingar fyrr en eftir neikvætt fyrsta hraðpróf.

Einnig viljum við biðja aðstandendur, eldri iðkendur og aðra þá sem koma inn í íþróttahús HK um að bera grímur á göngum.

Að lokum viljum við hvetja iðkendur til þess að dvelja ekki að óþörfu í húsinu svo blöndun og skörun hópa sé sem allra minnst. Eru tilmæli þessi sett fram vegna þess hve erfitt hefur reynst að halda utanum og greina þörf fyrir smitgát og sóttkví.

Við vitum öll hve íþyngjandi og lýjandi þetta ástand er en við höfum fulla trú á að saman verði baráttan unninn!

Virðingarfyllst,


 

Ný reglugerð tók gildi þann 23. desember


Ný reglugerð heilbrigðisráðherra tekur gildi þann 23. desember og eftirfarandi eru helstu atriði er snerta íþróttahreyfinguna: 

  • Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 50 í 20 manns og telja börn með í þeim fjölda.
  • Nándarregla verður aftur 2 metrar nema á meðal gesta á sitjandi viðburðum, þar verður nándarregla 1 metri. Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin nándarreglunni.
  • Grímuskylda gildir þar sem ekki er hægt að viðhafa 2 metra regluna en börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.
  • Íþróttaæfingar og keppnir barna og fullorðinna eru heimilar fyrir allt að 50 manns.
  • Sótthreinsa skal snertifleti og sameiginleg áhöld milli hópa og lofta skal vel út.
  • Allt að 200 manns geta verið í áhorfendastúkum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem m.a. fela í sér notkun hraðprófa.
  • Allt að 50 manns geta verið í hverju hólfi í áhorfendasvæðum þar sem hraðpróf eru ekki nýtt en þó að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
  • Sundstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði geta tekið á móti allt að 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta. Börn telja ekki með í þeim fjölda.

Frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins.
Reglugerð heilbrigðisráðherra birt þann 21.desember.
Minnisblað sóttvarnalæknis frá 20. desember.